Auðugir Bandaríkjamenn styðja þá skoðun landa síns Warren Buffett að þeir sem hafi mikið á milli handanna greiði hærri skattaprósentu en nú um stundir. Buffett benti á það fyrir stuttu að hann hafi greitt rétt rúmlega 10% tekjuskatt á meðan tæp 40% skattur leggist á herðar starfsfólks fjárfestingarfélagsins Berkshire Hathaway sem hann hefur stýrt í um hálfa öld.

Talsverður munur er á afkomu Buffetts og starfsfólki fyrirtækisins. Hann er 81 árs og þriðji ríkasti maður í heimi samkvæmt upplýsingum bandaríska tímaritsins Forbes. Auður Buffetts er metinn á um 45 milljarða dala.

Samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar á vegum bandaríska fjármálafyrirtækisins PNC Wealth Management sem nýverið var gerð ytra styður 71% þeirra sem geta talist til ríkra einstaklinga að þeir sem efni hafi á því taki á sig auknar byrðar. Þá kemur fram í könnuninni sem Bloomberg gerir að umfjöllunarefni að tæp 70% þátttakenda í könnuninni geti hugsað sér að gefa meira til góðgerðarmála en nú um stundir. Einungis fjórðungur þátttakenda í könnuninni sagðist ætla að draga úr framlögum sínum til góðgerðarmála verði skattar á þá hækkaðir. Meðalútgjöld þátttakenda til góðgerðarmála námu 25 þúsund dölum á rið 2010, jafnvirði rétt rúmra þriggja milljóna króna.

Ríka fólki gerir þó fyrirvara við aukna skattbyrði því flestir eru tilbúnir til að greiða meira svo lengi sem aðrir í sama hópi opni líka veskið.