Undanþága Eftirlitsstofnunar EFTA vegna meira en 1.000 milljarða króna ríkisábyrgðar á innlánum í íslenskum bönkum rann út fyrir 18 mánuðum. Ríkisábyrgðin varð þar með óheimil samkvæmt EES reglum.

Þrátt fyrir það hafa íslensk stjórnvöld áréttað ríkisábyrgðina nokkrum sinnum síðan undanþágan rann út. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku virðist sem ábyrgðin kunni einnig að stangast á við lög um ríkisábyrgð en samkvæmt þeim má ekki veita ríkisábyrgð nema með sérstökum lögum.

Ábyrgðin brenglar samkeppni

Ríkisstjórn Íslands gaf út yfirlýsingu þann 6. október 2008 þess efnis að ríkið myndi tryggja innstæður hjá innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og hefur sú yfirlýsing verið ítrekuð mörgum sinnum síðan. Sama dag voru samþykkt lög sem kveða á um að innstæður standi framar almennum kröfum komi til greiðslufalls hjá fjármálafyrirtæki.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, komst að þeirri niðurstöðu sumarið 2012 að yfirlýsingin væri jafngild bindandi ríkisábyrgð og úrskurðaði að ábyrgðin væri aðeins heimil til ársloka 2014. Að þeim tíma liðnum ættu tryggingar á innstæðum aðeins að ráðast af EES-reglum, sem kveða á um tryggingasjóð og tiltekna lágmarkstryggingu.

Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir ESA að umrædd heimild fyrir ríkisábyrgð á innstæðum hafi hvorki verið framlengd né endurnýjuð síðan. Stofnunin segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki óskað eftir framlengingu heimildarinnar.

Innstæður njóti ríkisábyrgðar

Yfirlýsingin frá 6. október 2008 hefur hins vegar aldrei verið dregin til baka. Stjórnvöld hafa litið svo á að yfirlýsingin feli í sér fulla tryggingu á innstæðum.

„Ábyrgð ríkisins á innstæðum hefur ekki verið lögfest en yfirlýsingin felur í sér skuldbindandi stefnu og vilja stjórnvalda,“ segir í ríkisreikningi ársins 2015 sem birtur var á dögunum. Í greinargerð með fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er bent á að innstæður í íslenskum bönkum „sem njóta ríkisábyrgðar samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands“ séu ekki meðtaldar í yfirliti yfir ríkisábyrgðir.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki svarað fyrirspurnum Viðskiptablaðsins um málið.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .