Íslenska ríkið er stærsti eigandi Farice ehf. sem á bæði Farice og Danice-sæstrengina. Eignarhlutur ríkisins í fyrirtækinu er 28,07% en auk þess á Landsvirkjun 26,69% hlut í félaginu og Landsbankinn á 1,05%. Því má segja að 56,26% hlutur sé í eigu hins opinbera. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks.

Auk þessara aðila eiga Arion banki og Glitnir banki hlut í fyrirtækinu og á Arion 43,47% B-hluti sem bera fimmfalt minna atkvæðavægi. Þegar litið er til atkvæðavægis fer ríkið með 58,2% atkvæða, Landsvirkjun 21,4% og Arion 19,7%.

Í svarinu kemur einnig fram að ríkisábyrgð sé á hluta þeirra veðtryggðu langtímalána Farice sem stofnað var til vegna lagningar strengjanna. Þær skuldir nema 7 milljörðum króna en heildarskuldir eru 9,3 milljarðar.

Ríkið hafi lagt félaginu til nýtt A-hlutafé, 11 milljónir evra, við fjárhagslega endurskipulagningu þess. Veðtryggðir lánveitendur hafa samþykkt að endurfjármagna skuldir félagsins.