Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að fella niður lög um heimild til handa ráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast skuldabréf vegna fjármögnunar nýrrar starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar ehf.

Í frumvarpinu segir: „Hingað til hefur deCODE Genetics Inc. ekki óskað eftir að heimild sú er lögin veita verði nýtt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá október 2015 kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hefði deCODE afturkallað beiðni sína um ríkisábyrgð áður en til ríkisábyrgðar kom. Fyrirtækið óskaði eftir gjaldþrotaskiptum í Bandaríkjunum árið 2009.“ Í sömu skýrslu Ríkisendurskoðunar sem vitnað er í að ofan kemur fram að það sé óljóst hvort að heimild fjármála- og efnahagsráðherra sé enn virk.

Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá 17. nóvember 2009 gaf fjármálaráðuneytið þær upplýsingar að deCODE gæti enn sótt um ríkisábyrgðina. Fjármálaráðherra þyrfti þó að samþykkja hana og skrifa undir samninga þess efnis. Í svari við fyrirspurn Ríkisendurskoðunar til fjármála- og efnahagsráðuneytis um þetta í ágúst 2015 kom fram að það liti svo á að lagaheimildin væri hvorki opin né tímalaus. Hún hefði verið tengd fjármögnun lyfjaþróunaráforma sem síðan hefðu verið fjármögnuð eftir öðrum leiðum. Engin þörf væri á að fella lögin formlega úr gildi þar sem skilyrði fyrir ábyrgðarveitingunni væru ekki lengur fyrir hendi. Ríkisendurskoðun telur engu að síður rétt að fjármála- og efnahagsráðuneyti stuðli að því að lögin verði felld úr gildi enda þjóni þau engum tilgangi.“