Skilyrði laga um ríkisábyrgðir munu ekki eiga við veitingu ríkisábyrgðar til Icelandair þar sem skilyrði laganna eiga „ekki vel við þegar kemur að því að veita efnahagslegan stuðning til fyrirtækja vegna ytri aðstæðna eins og heimfaraldurs.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð með frumvarpi til fjáraukalaga þar sem félaginu er veitt lánalína með ríkisábyrgð.

Alþingi kemur saman til funda á fimmtudag og meðal þess sem verður á umræðu er fjármálastefna og ríkisábyrgð til Icelandair. Þingskjölum vegna þessa var dreift nú síðdegis á þingvefnum.

Samkvæmt frumvarpinu hefur aðkoma ríkisins að veita félaginu ábyrgð eða tryggja því aðgang að lánsfé verið háð þeim forsendum að aðkoma ríkisins sé nauðsynleg til að tryggja traustar og órofnar flugsamgöngur frá landinu. Einnig að til staðar verði öflugt flugfélag til að taka þátt í efnahagsviðspyrnu þegar veiran er á brott og að almannafé og áhætta ríkisins verði takmörkuð við það sem þjóni opinberum hagsmunum. Ekki sé stefnt að því að verja hag hluthafa eða kröfuhafa.

Skilmálar fyrir téðri lánalínu eru þeir að hlutafjárútboð félagsins heppnist. Þá hefur félagið aðgang að um 52 milljón dollara rekstrarlánalínu hjá viðskiptabönkum sínum en fyrirhuguð ábyrgð ríkisins, 120 milljónir dollara 90% ábyrgð af ríkinu, er hugsuð til þrautavara. Óheimilt verður að draga á lánalínuna nema aðrir kostir verði fullreyndir.

„Rétt er að benda á að rekstrarlínur bankanna lokast ef eigið fé [Icelandair] fer undir 8%. Miðað við áætlun félagsins fer eiginfjárhlutfall þess lægst í 13,3% í lok fyrsta árshluta 2022. Rekstarlínur bankanna ættu því að haldast opnar þótt nokkur frávik verði í rekstri félagsins miðað við áætlun þess,“ segir í greinargerðinni.

Hámark verður sett á mánaðarlegan ádrátt lánalínunnar komi til þess að Icelandair neyðist til að draga á hana. Verður það 20 milljónir dollara. Hins vegar verða mörk við 2% eiginfjárhlutfall. Fyrri mörkin eiga að tryggja að ávallt taki minnst hálft ár að fullnýta línuna og hið síðarnefnda á að koma í veg fyrir að dregið verði á lánið ef rekstur hefur gengið það illa að eigið fé sé við það að klárast.

„Að auki er miðað við að ríkið taki veð í eignum félagsins til tryggingar endurgreiðslu reyni á ábyrgð þess. Um er að ræða veð í vörumerki félagsins og dótturfélagsins Icelandair ehf., vefslóð sömu félaga og lendingarheimildum í London og New York, ef unnt reynist að taka veð í lendingarheimildum,“ segir í greinargerðinni.

Aðeins verður heimilt að nýta lánalínurnar til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði og óheimilt verður að nýta hana til að endurfjármagna núverandi skuldbindingar. Þá verður félaginu gert óheimilt að greiða út arð meðan hún er útistandandi. Heimilt verður að draga á línuna út september 2022. Endurgreiðslur taki þrjú ár og er gert ráð fyrir að verði umframlausafé til staðar beri að greiða allt að þrjá fjórðu þess inn á lánið til lækkunar þess.

Samhliða fjáraukalagafrumvarpinu er lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um ríkisábyrgð en það hefur enn ekki komið inn á vef þingsins. „Er það gert sökum þess að lög um ríkisábyrgðir eiga fyrst og fremst við þegar ríkissjóður veitir ábyrgðir vegna einstakra framkvæmda eða verka en ekki þegar verið er að veita sérstakan efnahagslegan stuðning til fyrirtækja vegna ytri aðstæðna eins og heimsfaraldurs,“ segir í greinargerðinni.

Af þeim sökum verður bætt við ákvæði til bráðabirgða við lög um ríkisábyrgðir þar sem kemur fram að lögin muni ekki gilda um veitingu ríkisábyrgðar til Icelandair.