Frá setningu laga um ríkisábyrgðir árið 1997 og fram til ársloka 2014 námu gjaldfallnar ríkisábyrgðir um 33 milljörðum króna. Stærstan hluta þeirra má rekja til ábyrgða sem tengdust Lánasjóði landbúnaðarins og annara mála sem tengdust falli viðskiptabankanna. Þetta segir í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um ábyrgðir ríkisins.

Í árslok 2014 námu ríkisábyrgðir 1.213 milljörðum króna og endurlán ríkissjóðs um 102 milljörðum. Ábyrgðirnar hafa sexfaldast frá árinu 1997.

Í lögum um ríkisábyrgðir segir að ríkissjóður megi ekki takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar nema Alþingi veiti lagaheimild til þess.

Þá eru í lögunum sett fram ítarleg skilyrði fyrir því að ríkissjóður geti veitt ríkisábyrgð eða endurlán. Þar gegnir Ríkisábyrgðasjóður mikilvægu hlutverki, bæði sem umsagnar- og eftirlitsaðili.

Sjóðurinn er vistaður hjá Seðlabanka Íslands, í deild sem heitir Lánamál ríkisins, samkvæmt samningi við fjármála- og efnahagsráðuneyti.