Ríkisábyrgðir á lánum eru samtals 1,1 þúsund milljarðar, en hafa farið minnkandi frá árinu 2011 þegar þær voru rúmlega 1,2 þúsund milljarðar.

Langmest vegna Íbúðalánasjóðs

Kemur langmesti hlutinn til af ábyrgðum á lánum Íbúðalánasjóðs, eða 840,49 milljarðar, en þar hefur jafnframt mesta minnkunin verið en árið 2011 var ábyrgðin sem hvíldi á ríkissjóði á lánum stofnunarinnar 943,88 milljarðar.

Aukning hefur hins vegar verið á ábyrgðinni vegna lána Landsvirkjunar, sem fóru úr 233,417 milljörðum í 238,248 milljarða. Athygli vekur að ábyrgðin á lánum RÚV minnkar eilítið, úr 3,553 milljörðum í 2,86 milljarða. Á meðan hefur ábyrgðin á lánum Isavia ohf. liðlega helmingast, úr 3,1 milljarði í 1,576 milljarða.

Einnig hefur eilítið minnkað í lánum Norræna fjárfestingabankans sem ríkissjóður ber ábyrgð á, fóru þær úr 2,855 milljörðum í 2,175 milljarða.

„Innstæður í íslenskum bönkum, sem ríkisábyrgðar njóta samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, eru ekki meðtaldar í yfirliti yfir ríkisábyrgðir“ segir í neðanmálsgrein í skýrslunni, en Viðskiptablaðið hefur fjallað um að ábyrgð ríkisins á bankainnistæðum hafi verið bönnuð undanfarna 18 mánuði.