Heildarstaða á ríkisábyrgðum í lok fjórða ársfjórðungs 2008 var rúmlega 1.246 milljarðar króna og hafði hækkað um rúmlega 354 milljarða króna á síðasta ári samkvæmt yfirliti Seðlabankans.

Af heildartölu lána með ríkisábyrgð eru rúmlega 355 milljarðar króna eða um 28,5% í erlendum gjaldmiðlum.

Nýjar ríkisábyrgðir á árinu 2008 námu alls tæplega 54,4 milljarðar króna og voru til Íbúðalánasjóðs, um 41,2 milljarðar kr., Landsvirkjunar um 11,3 milljarða kr. og Byggðastofnunar um 1,9 milljarða kr.

Aukningu á ríkisábyrgðum undanfarin ár má að mestu rekja til aukningar í lánum Íbúðalánasjóðs sem fellur undir C-hluta ríkissjóðs og var hlutfall Íbúðalánasjóðs í heildartölu ríkisábyrgða 65% í lok fjórða ársfjórðungs 2008. Aukningu ríkisábyrgða á árinu 2008 má að stórum hluta rekja til hækkunar, vísitölu neysluverðs og breytinga á gengi íslensku krónunnar.

Upplýsingum um ríkisábyrgðir er safnað ársfjórðungslega frá öllum þeim aðilum sem hafa lán með ríkisábyrgð og/eða njóta ríkisábyrgða á skuldbindingar sínar vegna eignaraðildar ríkissjóðs.