*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Erlent 22. janúar 2021 08:54

Ríkisaðstoð haldi lífi í 10% fyrirtækja

Stuðningur þýska ríkisins heldur lífinu í um einu af hverjum tíu fyrirtækjum í landinu samkvæmt útreikningum AGS.

Ritstjórn
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur líkt og aðrir þjóðarleiðtogar, staðið í ströngu undanfarin misseri vegna veirufaraldursins.
EPA

Stuðningur þýska ríkisins heldur lífinu í um einu af hverjum tíu fyrirtækjum í landinu, sem án stuðningsins vegna veirufaraldursins hefðu þurft að hætta starfsemi samkvæmt útreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sjóðurinn varar við því að um leið og stuðningsaðgerðum stjórnvalda verði aflétt eru líkur á að fjöldi félaga fari í þrot. Reuters greinir frá.

Samkvæmt úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fyrirtæki í hótel- og veitingageiranum komið verst út úr kórónuveirukreppunni. Reikna megi með að um þriðjungur lána slíkra fyrirtækja hefðu ekki fengist greidd og farið í vanskil ef aðgerðir þýska ríkisins hefðu ekki komið til skjalanna. 

Gagnrýnisraddir í landinu hafa bent á að stuðningur þýska ríkisins hafi haldið ólífvænum fyrirtækjum, sem í eðlilegu árferði væru farin á hausinn, á floti. Þrátt fyrir að faraldurinn hafi gengið að ýmsum félögum dauðum í landinu er bent á að ríkisaðstoðin hafi orðið til þess að gjaldþrot fyrirtækja drógust saman um 13% á fyrstu níu mánuðum ársins 2020, í samanburði við sama tíambil árið áður.