Íslenska ríkið hefur veitt sífellt meiri ríkisaðstoð síðustu árin. Árið 2008 nam ríkisaðstoð samtals 2,3 milljörðum króna á núvirði þegar aðstoð vegna fjármálakreppunnar er ekki talin með. Á núvirði nam veitt ríkisaðstoð 8,1 milljarði króna árið 2014, en á því ári var engin aðstoð veitt vegna fjármálakreppunnar. Ef ríkisaðstoð vegna fjármálakreppunnar er ekki meðtalin jókst veitt ríkisaðstoð á hverju einasta ári á tímabilinu 2010-2014.

Ríkisaðstoð er skilgreind sem aðstoð sem veitt er af hinu opinbera og er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara. ESA, eftirlitsstofnun EFTA, heldur utan um umfang veittrar ríkisaðstoðar og birtir sérstaka skýrslu um málið ár hvert.

Í nýjustu skýrslunni, sem kom út á dögunum, er fjallað um árið 2014. Þá jókst ríkisaðstoð íslenska ríkisins um 13 prósent frá árinu áður. Aukningin orsakast einkum af aukinni aðstoð vegna rannsókna og þróunar og vegna menningararfleifðar. 44% þeirrar aðstoðar sem íslenska ríkið veitti árið 2014 voru vegna rannsókna og þróunar, en 35% vegna menningar. Athygli vekur að aðeins 15% ríkisaðstoðar voru vegna byggðaþróunar.

Átjánföldun vegna álvera og kvikmyndagerðar

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu eru nokkrar skýringar á sífellt hækkandi ríkisaðstoð síðan árið 2008. Endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu fóru úr 89,5 milljónum árið 2008 í 1.574 milljónir árið 2014. Stuðningur við Hörpu bættist við frá 2011 og nam um 1.222 milljónum árið 2014.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .