Icelandair metur sem svo að einskiptakostnaður sem hlýst vegna heimsfaraldursins nemi 210 milljónum dollara, andvirði 28,6 milljörðum króna. Er Þetta meðal þess sem kemur fram í fjárfestakynningu félagsins.

Sjá einnig: 250 þúsund lágmarksverð í útboðinu

Þar af er stærstur hluti vegna niðurfærslu á viðskiptavild félagsins sem nemur 123 milljónum dollara, um 16,8 milljörðum króna. Hins vegar lækkar félagið einskiptakostnað sinn um 34 milljónir dollara, andvirði 4,6 milljarða króna vegna aðgerða ríkisins. Ekki er nánar tekið fram hvaða aðgerðir um ræðir en ríkið hefur tekið þátt í greiðslu launa starfsmanna á uppsagnarfresti, greitt hlutabætur til starfsmanna og í vor greiddi ríkið Icelandair fyrir að halda uppi vissum flugleiðum.

Enn fremur hafa Íslensk stjórnvöld samþykkt að veita 90% ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair sem nemur allt að 16,5 milljörðum króna, háð samþykki Alþingis og að hlutafjárútboð félagsins gangi eftir. Aðstoð ríkisins vegna lánalínunnar nemur því allt að 14,85 milljörðum króna sem bætist við fyrrnefnda 4,6 milljarða og heildaraðstoð ríkisins því 19,45 milljarðar króna, enn sem komið er.

Sjá einnig: Icelandair spáir rekstrarhagnaði 2022

Næst þyngst vegur greiðsla vegna uppsagna eða um 46 milljónir dollara. Félagið telur að það muni verða af 43 milljónum dollara sökum óhagstæðra breytinga á verðþróun eldsneytisvarna. Að auki hefur Icelandair niðurfært eignir í 757 MAX-vélunum sínum fyrir 28 milljónir dollara af varúðarástæðum.