*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Erlent 26. mars 2020 07:06

Ríkisaðstoð við flugfélög síðasta úrræðið

Fjármálaráðherra Bretlands hefur hvatt flugfélög til að sækja fjármagn frá hluthöfum sínum, fremur en að treysta á ríkisstuðning.

Sveinn Ólafur Melsted
Breska flugfélagið British Airways er eitt stærsta flugfélag Evrópu. Félagið hefur líkt og mörg önnur flugfélög neyðst til að fella niður fjölda fluga vegna kórónuveirunnar.

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, hefur sagt breskum flugfélögum að byrja á að leita aðstoðar annars staðar en hjá breska ríkinu, en bresku félögin eru líkt og flest önnur flugfélög að ganga í gegnum erfiða tíma sökum kórónuveirunnar. Eftirspurn eftir flugferðum hefur hrunið og hafa flugfélög því neyðst til að kyrrsetja margar vélar sínar meðan ástandið varir. BBC greinir frá þessu.

Hæstráðendur hjá bresku flugfélögunum hafa kallað eftir því að breska ríkið setji saman aðgerðaplan til að koma í veg fyrir gjaldþrot félaganna vegna samdráttar í eftirspurn.

En í bréfi fjármálaráðherrans segir að ríkisaðstoð yrði einungis síðasta úrræðið og hvatti flugfélögin til að freista þess að sækja aukið fjármagn frá hluthöfum sínum. Ríkið myndi ekki hefja viðræður um fjárhagsaðstoð við einstaka flugfélög nema að tiltekið félag væri búið að leita allra annarra mögulegra leiða til að fjármagna sig.

Alþjóðleg flugmálayfirvöld (IATA) hafa varað við að „heimsendaástand" gæti skapast innan fluggeirans og hvatti stjórnvöld um heim allan til að aðstoða flugfélögin í gegnum þessa erfiðu tíma. Að sögn flugmálayfirvalda gætu tekjur fluggeirans af miðasölu á árinu 2020 dregist saman um 252 milljarða dollara, ef ferðalagatakmarkanir verða áfram í gildi næstu þrjá mánuði. Um yrði að ræða 44% tekjusamdrátt frá fyrra ári.   

Stikkorð: Bretland ríkisaðstoð flug Rishi Sunak