Í nýrri skýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) kemur fram að ríkisaðstoð við atvinnulíf er með minnsta móti á Íslandi. Stofnunin kannaði ríkisaðstoð í EFTA löndunum á árunum 2004 og 2005 og bar saman við ESB-ríkin. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

Þar kemur fram að þetta er fyrsta skýrslan sem ESA sendir frá sér um þetta efni en í henni kemur m.a. fram að heildarfjárhæð veittra styrkja í EFTA ríkjunum nam um 1,6 milljörðum evra árið 2005 eða sem nemur um 138 milljörðum íslenskra króna. Heildarfjárhæð styrkja er langhæst í Noregi og var hlutfall styrkja af vergri landsframleiðslu á árinu 2005 ríflega fjórfalt miðað við samsvarandi hlutfall hér á landi og sautjánfalt miðað við Liechtenstein. Þegar horft er til hlutfalls af landsframleiðslu var ríkisaðstoð tæplega þrefalt hærri í ESB-ríkjunum en á Íslandi og ríflega þrefalt hærri í EFTA-ríkjunum.