Ríkisbankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Nýja Kaupþing eiga nú tæplega 180 íbúðir sem þeir hafa leyst til sín vegna veðkrafna fyrir skuldum einstaklinga.

Hluti þessara íbúða komst þó í eigu bankanna fyrir bankahrunið s.l. haust.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins á Landsbankinn 84 íbúðir, Íslandsbanki 55 íbúðir á ýmsum byggingarstigum og Nýja Kaupþing 39 íbúðir.

Eins og áður hefur komið fram í Viðskiptablaðinu hafði Landsbankinn verið stærstur á íslenskum bankamarkaði með víðtækasta útibúanetið og mesta hlutdeild á einstaklingsmarkaði svo það er kannski ekkert óvenjulegt að hann sitji uppi með margar eignir.

Þá eiga bankarnir eitthvað af atvinnurými. Í dag á Landsbankinn um 14 eignir sem flokkast sem atvinnuhúsnæði í heildina, en það verður þó að taka með í reikninginn að eitt heimilisfang getur verið með fjölda eignarhluta þannig að þessar 14 eignir hafa um 30 eignarhluta eða einingar, samkvæmt upplýsingum sem fengust frá bankanum. Hjá Landsbankanum hafa fengist þær upplýsingar að sá háttur er hafður á að sala á eignum fer í gegnum þriðja aðila og er bankinn í samstarfi við nokkrar fasteignasölur.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Íslandsbanka á hann í dag 16 atvinnurými. Um sölu fullnustueigna bankans gilda strangar reglur og felur bankinn fasteignasölum að selja slíkar eignir fyrir sig.

Kaupþing á 9 eignir sem flokkast undir atvinnustarfsemi, þ.e.a.s. verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Ekkert iðnaðarhúsnæði er til.

Landsbankinn hefur ekki leyst til sín neitt fasteignafélag en Íslandsbanki á fasteignafélagið Laugarakur að fullu en hann eignaðist það félag um mitt síðasta  ára. Félagið er hýst undir eignaumsýslufélagi bankans - Miðengi.

Landfestar, fasteignafélag í eigu Nýja Kaupþings, kemur til með að sjá um umsýslu atvinnuhúsnæðis. Eftir því sem komist verður næst hafa engar eignir sem hafa verið teknar yfir vegna hrunsins verið færðar þar inn.