Útibúum beggja viðskiptabankanna sem eru í eigu ríkisins, Íslandsbanka og Landsbankans, hefur verið lokað, nema í tilfellum sem brýn nauðsyn krefur til, vegna útbreiðslu kórónuveirunnar Covid 19, meðan á hertu samkomubanni stjórnvalda gildir.

Þriðji viðskiptabankinn, Arion banki, hefur hins vegar takmarkað opnunartíma margra sinna útibúa eða lokað í sumum tilfellum ásamt því að biðja um að viðskiptavinir takmarki heimsóknir í útibú eins og kostur er.

Allir þrír bankarnir benda jafnframt á stafrænar lausnir, til að mynda að hægt sé að framkvæma flestar almennar bankaaðgerðir í netbönkum og smáforritum eða öppum bankanna. Íslandsbanki bendir á að viðskiptavinir geta bókað tíma í símaráðgjöf á vef Íslandsbanka þegar þeim henti, sem og netspjall, auk þess að hafa samband við þjónustusímann.

Hér má sjá yfirlit yfir valkosti í samskiptum við Íslandsbanka:

Landsbankinn býður upp á svipaða þjónustu en einnig býður bankinn upp á afgreiðslu í útibú ef erindið er mjög brýnt en þá þurfi að panta tíma fyrirfram, með því að hafa samband við þjónustuver bankans í síma 410-4000, í gegnum netspjall bankans, eða í gegnum tölvupóstfangið [email protected].

Hjá Landsbankanum gilda lokanirnar einnig hjá Fyrirtækjamiðstöð bankans og afgreiðslu Bíla- og tækjafjármögnunar hans í Borgartúni, en upplýsingar um þjónustu við fyrirtæki má finna á vef bankans .

Lilja Björk Einarsdóttir , bankastjóri Landsbankans, segir að með því að takmarka afgreiðslu í útibúum tímabundið sé verið að draga úr hættu á útbreiðslu Covid-19 og stuðla að bættu öryggi viðskiptavina og starfsfólks.

„Um leið fær starfsfólk mikilvægt svigrúm til að sinna óskum viðskiptavina um upplýsingar, úrræði og aðstoð. Við leggjum mikla áherslu á að styðja við viðskiptavini okkar um allt land á meðan þetta ástand varir. Í langflestum tilfellum má ljúka erindum með rafrænum hætti, með símtali eða tölvupósti. Við munum leysa úr málunum saman,“ segir Lilja Björk.

Hér má sjá yfirlit yfir opnunartíma útibúa Arion banka:

Vesturland

  • Borgarnes: Frá klukkan 12:00 til 15:00
  • Stykkishólmur: Frá klukkan 12:00 til 15:00
  • Búðardalur: Frá klukkan 12:00 til 14:00

Norður- og Austurland

  • Akureyri: Frá klukkan 11:00 til 16:00
  • Blönduós: Frá klukkan 10:00 til 12:00
  • Egilsstaðir: Frá klukkan 12:00 til 15:00
  • Fjallabyggð: Frá klukkan 12:00 til 15:00
  • Sauðárkrókur: Frá klukkan 12:00 til 15:00

Suðurland

  • Selfoss: Frá klukkan 9:00 til 12:00 og 13:00 til 16:00
  • Hella: Frá klukkan 9:00 til 12:00 og 13:00 til 16:00
  • Vík: Frá klukkan 12:30 til 15:00
  • Klaustur: Þriðjudaga og miðvikudaga frá klukkan 12:30 til 15:00
  • Hveragerði: Lokað

Höfuðborgarsvæðið

  • Hefðbundinn opnunartími á Bíldshöfða og á Smáratorgi.
  • Við Hagatorg er fjarfundarbúnaður lokaður. Gestgjafi aðstoðar með sjálfsafgreiðsluvélar á staðnum.
  • Lokað í Borgartúni 18 og í Kringlunni en sjálfsafgreiðsluvélar eru aðgengilegar.