Bónusgreiðslur til yfirmanna ríkisbankans Royal Bank of Scotland, sem breska ríkið þjóðnýtti í kjölfar efnahagshamfaranna haustið 2008, hafa vakið mikla reiði almennings í Bretlandi. Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, hefur fjallað mikið um bónusgreiðslurnar á vefsíðu sinni undanfarin misseri.

Bónusgreiðslur fyrir síðasta ár hjá Royal Bank of Scotland verða um einn milljarður punda, eða um 183 milljarða króna, að því er Robert Peston segir á vefsíðu sinni. Það er litlu minna en árið á undan en þá námu bónusgreiðslur um 1,3 milljarði punda, eða ríflega 200 milljörðum króna.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur opinberlega gagnrýnt bónusgreiðslurnar og sagt þær of háar. Bankar þar sem ríkið er stærsti eigandi ættu að greiða lægri bónusa en aðrir bankar. Hann sagðist þó skilja að það tæki tíma að gera grundvallarbreytingar á launaumhverfi í fjármálageiranum.

Peston segir að spurningar um hvort bankar í opinberri eigu eigi að greiða himinhá laun, séu skiljanlegar og réttmætar. Þetta séu sömu grundvallarspurningar og margir spyrja sig að í öðrum löndum, þar sem stjórnendur banka hafa valdið samfélögum miklu tjóni.

Vefsíðu Peston má lesa hér.