Breski bankinn Northern Rock, sem þjóðnýttur var á síðasta ári og er nú í eigu breska ríkisins, ætlar nú að verja um 14 milljörðum Sterlingspunda á næstu tveimur árum til húsnæðislána í þeim tilgangi að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn þar í landi á ný.

Frá þessu er greint á vef breska blaðsins The Daily Telegraph en haft er eftir talsmönnum bankans að hann muni bjóða viðráðanleg lán til þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð eða ætla sér að endurfjármagna önnur lán.

Talið er að tap bankans fyrir árið 2008 verði um 1,4 milljarðar punda fyrir skatt en bankinn tilkynnti um helgina að helstu stjórnendur hans fengju engar bónusgreiðslur greiddar, hvorki fyrir árið 2008 né árið í ár.

Óbreyttir starfsmenn bankans fengu þó greiddar bónusgreiðslur, sem nemur 10% af árslaunum þeirra, þar sem bankinn er á undan áætlun með greiðslur á láni frá breskum yfirvöldum. Eftir að hafa greitt um 18 milljarða punda skuldar bankinn nú 8,9 milljarða punda.

Með samkomulagi við bresk yfirvöld verður nú hægt á endurgreiðslum á láninu stóra og fjármagnið frekar notað í fasteignalán til viðskiptavina.

Ekki eru allir sáttir við þetta og hefur Telegraph eftir ónafngreindum viðmælanda sínum að með þessu sé breska ríkið að stunda lánastarfssemi í samkeppni við einkaaðila. Nær væri að láta Northern Rock endurgreiða lánið frá ríkinu þannig að hægt væri að selja bankann á ný.

Þá segir annar viðmælandi Telegraph að með því að nota banka í eigu ríkisins til að hleypa lífi í fasteignamarkaðinn sé hætta á að önnur verðbóla myndist á fasteignamarkaði með hörmulegum afleiðingum.