Ríkissjóður mun gefa út ríkisskuldabréf til ellefu ára fyrir allt að 35 milljarða króna á þessu ári í fimm aðskildum útboðum. Fyrsta útboðið hófst í dag og voru seld ríkisbréf fyrir 10 milljarða króna í þessari lotu. Ríkisbréf af þessu tagi hafa ekki verið boðin út síðan 2002.

„Afar jákvætt skref hjá ríkinu“

Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbanka Íslands [ LAIS ], segir útgáfuna vera afar jákvæð tíðindi þar sem skort hafi á aðgerðir sem styrkja vaxtamyndun til langframa. „Útgáfa af þessu tagi er eitt af því sem fjármálafyrirtækin hafa kallað eftir. Við höfum talið heppilegt að ríkið sé virkari útgefandi á markaði í stærri markflokkum ríkisbréfa, bæði verðtryggðum og óverðtryggðum. Það er því afar jákvætt skref hjá ríkinu,“ segir hann.

Halldór segir að bankar og fjármálastofnanir hafi kallað eftir meiri virkni af hálfu ríkisins á þessum markaði og fundist æskilegt að flokkarnir væru stærri og fleiri. „Í öllum fjármálakerfum eru ákveðnir markflokkar ríkisins sem mynda grunn við vaxtaákvarðanir og vaxtaferli og eru því þess vegna mjög mikilvæg tæki til að mynda eðlilegt vaxtaróf, í okkar tilviki bæði í verðtryggðum og óverðtryggðum. Við sjáum að ríki eins og Noregur, þó að það sé skuldlaust, leggja mikla áherslu á að gefa út flokka til að gæta að þessu hlutverki á markaði.“

„Hollenska fyrirkomulagið“ notað

Ríkisbréfin eru til ellefu ára, óverðtryggð og bera ársvexti sem greiðast eftir á, í lok febrúar hvers ár. Sex ár eru frá því að ríkissjóður gaf seinast út nýjan flokk ríkisbréfa til svo langs tíma og er því sá flokkur á gjalddaga eftir fimm ár. Fyrsta útboðið verður með svo kölluðu hollenska fyrirkomulagi, en það felur í sér að tilboð í ríkisbréf sem samþykkt eru í útboðinu seljast á sama verði. Sjö innlendir bankar, sem eru aðalmiðlarar ríkisbréfa, bjóða í vextina sem þeir óska eftir að fá greidda árlega. Hæsta samþykkta krafan, þ.e. lægsta tilboðsverð sem ríkissjóður gengur að, ræður söluverðinu. Niðurstaðan úr útboðinu mun síðan gefa vísbendingu um hvaða nafnvexti bréfið ber. Ríkissjóður hefur heimild til þess að ákvarða nafnvexti á bréfunum með 25 punkta fráviki frá niðurstöðu úr útboðinu. Næsta útboð verður hins vegar hefðbundið samkeppnisútboð, þar sem aðalmiðlarar senda inn verðtilboð.