Gefin verða út ríkistryggð skuldabréf fyrir 120 milljarða króna á þessu ári, samkvæmt útgáfuáætlun Lánamála ríkisins fyrir árið 2011. Fjallað er um málið í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa og segir að helst veki athygli að bæta á við tveimur óverðtryggðum flokkum, annars vegar til 10 ára og hinsvegar til 20 ára.

„Það verður sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig gengur að selja 20 ára óverðtryggðan flokk í landi sem er þekkt fyrir margt annað en stöðugt verðlag,“ segir í vikulegum markaðsfréttum.

„Í áætluninni kemur fram að fyrirhugað sé að breyta fyrirkomulagi á víxlaútgáfu á þann hátt að ríkisvíxlar verði til sex mánaða í stað fjögurra mánaða áður. Ennfremur verður hægt að stækka flokkana þegar þrír mánuðir eru til gjalddaga. Þetta er nýmæli og er ætlað að auka sveigjanleika ríkissjóðs til að mæta tímabundnum sveiflum í tekjum og gjöldum.“