*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 19. desember 2007 11:55

Ríkisbréf - há krafa framundan

Ritstjórn

Krafa ríkisbréfa hækkaði til samræmis við stýrivaxtahækkun Seðlabankans í byrjun nóvember og hefur sveiflast á nokkuð þröngu bili í flestum flokkum bréfanna. RIKB10 er þó undantekning þar á en krafa flokksins hefur lækkað töluvert og er á svipuðu róli nú og hún var fyrir stýrivaxtahækkun.

Í Morgunkorni Glitnis segir að verðmyndun ríkisbréfa eigi það til að vera óskilvirk og gerir Greining Glitnis ráð fyrir að kröfulækkun RIKB10 muni ganga til baka og að verðmyndun flokksins verði í meira samræmi við aðra ríkisbréfaflokka þegar líður á spátímann. Krafa í styttri flokkanna RIKB08 og RIKB09 mun í grófum dráttum þróast í samræmi fyrri stýrivaxtaspá. Á lengri flokkum ríkisbréfa, RIKB10 og RIKB13, telur greiningardeildin að krafan verði svipuð í lok árs og hún er nú. Á 1. ársfjórðungi er gert ráð fyrir að nýleg kröfulækkun RIKB10 muni ganga til baka að hluta og að krafa flokksins verði nálægt 10,9% í lok fjórðungsins. Samkvæmt spánni mun krafa RIKB13 hins vegar lækka lítillega á RIKB13 á 1. fjórðungi næsta árs og vera nálægt 10,4%. Greining Glitnis reiknar með að krafa RIKB09 verði 12,3% í lok næsta árs og að krafa á RIKB10 og RIKB13 verði á þeim tíma 11,7% og 9,8%. Meiri slagkraftur verður í hagkerfinu á næstunni en Seðlabankinn gerir ráð fyrir sem geri það að verkum að stýrivextir verði 9,5% í lok árs 2009. Á móti þeim slagkrafti sem enn er í hagkerfinu, sem meðal annars kemur fram í áframhaldandi mikilli einkaneyslu, vegur að lausafjárvandi hefur leitt til þess að aðgengi að fjármagni er takmarkað um þessar mundir. Helsta óvissa spárinnar er sú að stýrivextir gætu hækkað á einum af þremur næstu vaxtaákvörðunardögum bankans. Annar óvissuþáttur snýr að lausafjárvanda á fjármálamörkuðum sem gæti slegið hratt á þenslu í hagkerfinu og af þeim sökum er jafnvel hugsanlegt að lækkunarferli stýrivaxta verði hraðara framan af, segir í Morgunkorni Glitnis.