Bandarísk ríkisskuldabréf hækkuðu sjöttu vikuna í röð og ávöxtunarkrafa 10 ára bréfa er lægri en hún hefur verið frá árinu 2003 eftir skyndilega lækkun stýrivaxta í Bandaríkjunum, að því er fram kemur hjá Bloomberg fréttaveitunni í dag. Lækkun ávöxtunarkröfu skuldabréfa helst í hendur við hækkun á verði bréfanna.

Flökt ríkisbréfa er nú meira en það hefur verið í áratug  og miðlarar gera ráð fyrir að minnsta kosti 25 punkta lækkun stýrivaxta á miðvikudag, þann 30. janúar.

Bloomberg hefur eftir yfirmanni í skuldabréfaviðskiptum hjá Deutsche Bank í New York að ríkisbréf hækki þegar útlitið sé slæmt. Hann segir að framundan séu fleiri slæmar hagtölur  og þess vegna verði seðlabankinn að lækka vexti.