Ríkisendurskoðun telur að stíf sjónarmið um bankaleynd eigi ekki að fullu við þegar aðstæður eru jafn afbrigðilegar og raunin er í Icesave málinu.

Að sögn Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda er það þeirra sjónarmið að það sé nauðsynlegt fyrir ríkissjóð, sem er að gangast í þessa ábyrgð, hvaða væntingar menn hafa um endurheimtur á þeim eignum sem eru í Landsbankanum.

,,Það skiptir máli fyrir ríkissjóð að það séu fleiri en skilanefnd sem hefur upplýsingar um hvaða eignir eru þarna á bak við og hverjar eru líkurnar á hverjum tíma að innheimtist af þeim. Til að geta sett þetta í samhengi er nauðsynlegt að það sé einhver trúnaðaraðili hjá ríkissjóði sem ætti að geta haft aðkomu að eignasafninu til að meta það, án þess beinlínis að þá sé verið að segja frá því hvaða einstök fyrirtæki eru þarna á bak við,” sagði Sveinn.

Í umsögn Ríkisendurskoðunar til Alþingis segir: ,,Einkum sýnist óeðlilegt í ljósi þeirra óvenjulegu og geysilega miklu hagsmuna sem í húfi eru fyrir ríkissjóð í þessu máli að fullkomin leynd skuli talin gilda a.m.k. gagnvart fjárlaganefnd og eftirlitsstofnunum löggjafarvaldsins.”