Að sögn Sveins Arasonar ríkisendurskoðanda er ekkert í löggjöfinni sem bendir til þess að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir Tryggingasjóð innstæðueigenda eða þeim halla sem kunni að verða á honum. Þetta hefur Ríkisendurskoðun bent ítrekað á í skýrslum sínum til Alþingis og nú síðast í álitsgerð sinni til fjárlaganefndar vegna Icesave frumvarpsins.

Að sögn Sveins hefur ríkissjóður engin þau tök á Tryggingasjóðnum að það geti réttlætt það að honum sé skákað inn í ríkisreikning. ,,Bara af þessari ástæðu höfum við verið að endurtaka ábendingar okkar um að taka ætti ákvörðun um hvort ekki sé skynsamlegt að taka hann út úr ríkisreikningi því það að birta hann í ríkisreikningi er vísbending til þeirra sem lesa hann og þekkja ekki til mála að þarna sé eitthvert ríkisapparat á ferðinni. Við vildum út frá okkar skoðun á löggjöfinni um Tryggingasjóðinn meina að ríkissjóður væri algerlega ábyrgðalaus af öllum ákvörðunum sem hann tekur," sagði Sveinn.

Sveinn sagði að það væri augljóst að löggjafinn hér og erlendis hefur ekkert hugsað út í hvað myndi gerast við allsherjahrun í einu landi. ,,Það má hugsa sér að menn hefðu einhverja samstöðu um að leysa slík mál, allavega í Evrópusambandslöndunum, vegna þess að þetta er allt saman tengt þó hvert land sé með sitt kerfi. Það er ekki óeðlilegt að halda að þau lönd hefðu komið tryggingasjóði til hjálpar í einhverju landi ef hann hefði þurft á því að halda. Við erum fyrir utan þetta og við eigum enga aðkomu að seðlabönkum í Evrópusambandslöndum nema það sé velvilji um það."

Ríkisendurskoðun hefur í mörg ár barist fyrir því að fella Tryggingasjóð út úr D-hluta ríkisreiknigs og svo undarlega vill til að það er einmitt gert í nýjasta ríkisreikningi sem kom út fyrir árið 2008. ,,Ef einhverntímann var ástæða til að hafa hann inni væri það líklega núna en svona er þetta."