Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi hefur sent forseta Alþingis bréf þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við málflutning Vigdísar Hauksdóttir. Viðskiptablaðið hefur bréfið undir höndum en það fjallar annars vegar um ummæli Vigdísar á þættinum Eyjunni þann 31. janúar sl. þar sem fjallað var um starfslokasamninga ríkisstarfsmanna og hins vegar ummæli vigdísar á Bylgjunni í bítið þann 1. febrúar sl., þar sem fjallað var um ættartengsl ríkisendurskoðanda.

Óheimilir starfslokasamningar

Ummæli Vigdísar á Eyjunni fjölluðu um gerð starfslokasamninga við starfsmenn ríkisins, en slíkt er óheimilt. Hún sakar umboðsmann Alþingis og ríkisendurskoðun um að hafa verið sofandi á verðinum, því að slíkir samningar hafi færst í vöxt á undanförnum árum.

Ríkisendurskoðun segir i bréfinu að gert hafi verið grein fyrir starfslokasamningum ríkisins í tveimur skýrslum frá Ríkisendurskoðun, annars vegar Mannauðsmál ríkisins 1. Starfslok ríkisstarfsmanna frá janúar 2011 og hins vegar í eftirfylgnisskýrslu um sama mál frá desember 2014. Ríkisendurskoðandi segir að í skýrslunum hafi komið fram mjög skýr sjónarmið um starfslokasamninga hjá ríkinu.

Fjölskyldutengsl ríkisendurskoðanda

Ríkisendurskoðandi segir að ásakanir um að ríkisendurskoðandi hafi ekki virt hæfisreglur í starfi sínu séu ósannar dylgjur. Bróðir ríkisendurskoðanda er skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en ríkisendurskoðandi neytar að hann hafi ekki virt almennar hæfisreglur í störfum sínum. Hann segir að ráðuneytið hafi fengið sömu meðferð og allir aðrir og hann segir að athugasemdir ríkisendurskoðunar hafi síst verið minni en í tíð fyrirrennara hans.

Að lokum segir í bréfinu: „Það er skoðun mín að þingmenn eigi að gæta að orðalagi sín og alveg sérstaklega í fjölmiðlum og ræðustól Alþingis. Einig tel ég eðlilegt að þeir kynni sér mál og málavöxtu þegar þeir tjá sig um mál sem eru þeim hugleikin.“ Að lokum bendir hann síðan á drög að siðareglum fyrir Alþingismenn.

Vigdís segir í samtali við Viðskiptablaðið að hún standi við allar fullyrðingar sínar. Hún segir að kerfið verji sig og haldi áfram að gera starfslokasamninga þrátt fyrir ólögmæti þeirra. „Kerfið hlýðir hvorki honum [innsk. blaðamanns: þ.e. ríkisendurskoðanda] eða Umboðsmanni Alþingis, en hann sendi mér líka álit sem að var skrifað árið 2007 þar sem þetta er gagnrýnt og sagt að þetta sé óheimilt.“

Varðandi gagnrýni ríkisendurskoðanda um ummæli Vigdísar um ættartengls ríkisendurskoðanda segir Vigdís: „Þingmenn hafa fullt málfrelsi og sækja umboð sitt til kjósenda og engra annara. Þannig að vísa þessu öllu saman á bug.“

Varðandi bréfsendinguna sjálfa segir Vigdís:

„Það er afar undarlegt, og líklega einsdæmi, að embættismaður að þessari stærðargráðu sendir svona bréf vegna ummæla þingmanna. Þetta sýnir það að það er skjálfti í samfélaginu vegna þessara mála sem ég er búin að vera að taka upp undanfarna daga.“