Uppsafnaður rekstrarhalli Landbúnaðarháskóla Íslands jókst um 37% frá 2011 til ársins 2014 en skuld hans við ríkissjóð nam 630 milljónum króna í árslok 2014. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fjármál Landbúnaðarháskóla Íslands sem birtist á vef Ríkisendurskoðunar í dag.

Ríkisendurskoðun birti skýrslu um rekstrarvanda og erfiða fjárhagsstöðu Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2012 en þá var uppsafnaður rekstrarhalli 317 milljónir króna og skuld hans við ríkissjóð 694 milljónir króna. Í skýrslunni var sérstaklega bent á að þetta væru fjármunir sem Alþingi hefði ekki samþykkt að verja til skólans.

Ríkisendurskoðun hefur nú birt nýja skýrslu sem sýnir að þrátt fyrir viðleitni stjórnenda, hafi fjárhagsstaða skólans versnað. Uppsafnaður rekstrarhalli var við lok árs 2014 um 433 milljónir króna og skuld skólans við ríkissjóð 630 milljónir króna.

Ríkisendurskoðun hefur því ítrekað í nýrri skýrslu ábendingar úr fyrri skýrslu, að tryggja þurfi að rekstur skólans rúmist innan fjárheimilda og að finna þarf varanlega lausn á skuld skólans við ríkissjóð.