Ríkisendurskoðun og Ríkisútvarpið (RÚV) eru skaðabótaskyld gagnvart Grant Thornton endurskoðun ehf. vegna útboðs um endurskoðun ársreikninga samstæðu RÚV. Þetta er niðurstaða kærunefndar í útboðsmálum sem taldi lægstbjóðanda í útboðinu hafa betri upplýsingar en aðrir bjóðendur.

Í september á síðasta ári bauð Ríkisendurskoðun út endurskoðun ársreikninga RÚV, það er móðurfélags og félaga innan samstæðunnar. Tveggja vikna fyrirspurnafrestur var veittur og barst ein spurning á honum um umfang starfsemi dótturfélaga. Þar kom að tekjur þeirra á fyrri helmingi ársins 2020 hefðu numið 910 milljónum króna og tekjur af auglýsingum 741 milljón króna.

Sjö aðilar skiluðu inn tilboðum og var hið lægsta frá Advant endurskoðun en þau höfðu séð um endurskoðun samstæðunnar síðastliðin fimm ár. Tilboð þeirra hljóðaði upp á 4,3 milljónir króna með virðisaukaskatti. Tilboð Grant Thornton var næstlægst, 6,1 milljón króna. Ríkisendurskoðun óskaði eftir skýringum á því hví tilboð Advant var svo mikið lægra, fékk þær og tók síðan tilboðinu.

Grant Thornton grunaði að maðkur væri í mysunni enda nam tilboð Advant aðeins 44% af því sem það hafði fengið í þóknun fyrir endurskoðun RÚV rekstrarárið 2019. Í skýringum Ríkisendurskoðunar kom fram að í kjölfar stofnunar RÚV Sölu ehf., dótturfélags RÚV, hefði staðfesting tekna einfaldast til muna. Vanskilakröfum hefði enn fremur fækkað. Þá hefði RÚV nýverið innleitt Navision kerfið sem feli í sér talsverðan vinnusparnað.

Ekki augljóst að umfangið hefði minnkað

Í kæru Grant Thornton kom fram að svo virtist sem Advant hefði lækkað tilboð sitt þar sem umfang endurskoðunarinnar yrði minna vegna stofnunar dótturfélagsins. Ekkert lægi hins vegar fyrir um það hvort RÚV Sala væri endurskoðunarskylt. Í öllu falli taldi félagið að Advant hefði notið forskots í umræddu örútboði þar sem félagið hefði haft upplýsingar sem aðrir þátttakendur höfðu ekki.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að svo virðist sem Ríkisendurskoðun hafi ekki áttað sig á því að kostnaður við endurskoðun yrði fyrirsjáanlega lægri vegna rekstrarársins 2020 samanborið við 2019. Þá var ekki talið að stofnun RÚV Sölu hafi verið þess eðlis að bjóðendur hafi mátt gera sér augljósa grein fyrir því að umfangs endurskoðunarvinnunnar yrði minni þetta árið.

„Af fyrrgreindu virtu í heild verður ráðið að Advant endurskoðun ehf. hafi búið yfir frekari upplýsingum um hin boðnu kaup en aðrir bjóðendur sökum fyrri starfa sinna fyrir varnaraðila Ríkisútvarpið ohf. Ekki lágu því allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir öðrum bjóðendum í hinu kærða örútboði, þ.m.t. kæranda, þegar tilboðum var skilað,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Ekki þótti unnt að fella útboðið úr gildi þar sem gildandi samningur hefði þegar komist á. Aftur á móti var það mat nefndarinnar að Ríkisendurskoðun og RÚV væru skaðabótaskyld gagnvart Grant og Thornton vegna þess kostnaðar sem félagið lagði í við undirbúning tilboðs síns. Auk þess var hinu opinbera gert að greiða Grant Thornton 500 þúsund krónur í málskostnað fyrir nefndinni.