Til skoðunar er hjá Ríkisendurskoðun hvort ársreikningur ÁTVR teljist fullnægjandi og samrýmist kröfu sem gerð er til fyrirtækja á vegum hins opinbera um að reksturinn skili viðunnandi arðsemi. Hagnaður ÁTVR nam rúmum 1,1 milljarði en sagðar eru líkur á að hagnaðurinn sé allur kominn frá tóbakssölu en áfengissala sé hins vegar rekin með tapi. Fréttablaðið greinir frá þessu.

Ársreikningur ÁTVR fyrir árið 2018 var birtur opinberlega í mars en í sumar barst Ríkisendurskoðun erindi þar sem dregið er í efa að ársreikningurinn samrýmist viðunandi arðsemiskröfu. Í erindinu, sem Fréttablaðið kveðst hafa undir höndum, eru leiddar líkur á að taprekstur sé á áfengishlið rekstrar ÁTVR.

Í samtali við Fréttablaðið segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisendurskoðandi, að málið sé í meðferð.

Þá segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, að fyrirtækið sinni smásölu áfengis og heildsölu tóbaks. „Reksturinn miðar við þetta hlutverk og er því ein heild sem skýrir hvers vegna rekstrargjöld eru ekki sundurliðuð enda margir þættir í starfseminni sem sinna bæði áfengi og tóbaki."