Ríkisendurskoðun réð ekki annað í upplýsingar og forsendur byggingar Hörpu, í mars 2009, en að rekstur hússins ætti að standa vel undir öllum kostnaði við byggingu þess og rekstri. Þetta kemur fram í minnisblaði stofnunarinnar til fjárlaganefndar Alþingis sem Fréttablaðið greinir frá í dag.

Í minnisblaðinu segir að þáverandi útreikningar hafi bent til að reksturinn geti staðið undir sér og nægi til að greiða tilbaka lán og viðhalda verðmæti hússins. Svo sé, jafnvel þó að aðeins sé gert ráð fyrir innan við helmingi annarra leiguteikna. Átt er við annarra tekna en af Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Forsendur Ríkisendurskoðunar voru þær að áætlanir um byggingarkostnað gengju eftir sem og vaxtakostnað. Ríkisendurskoðun taldi að rekstraráætlanirnar væru varfærnar og gáfu til kynna að hugsanlegt væri að reksturinn stæði undir meiri kostnaði en reiknað var með. „Ávinningur af því að geta lokið verkinu og tekið húsið í notkun hlýtur að réttlæta eitthvað meiri áhættu en áður," segir enn fremur í áliti Ríkisendurskoðunar.

Áður hefur komið fram að áætlanir um kostnað og tekjur Hörpu hafa ekki staðist að mörgu leyti. Gert er ráð fyrir að tap á árinu 2012 verði um 407 milljónir króna.