Um helmingur stofnana ríkisins skilar ekki rekstraráætlunum en Ríkisendurskoðun telur að stærstur hluti þeirra ætti að gera það. Þetta er meðal niðurstaða í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana.

Í skýrslunni kemur fram að stofnanir skila áætlunum seint miðað við gildandi reglur og ráðuneytin hafi einnig verið sein að afgreiða þær. Drátturinn hafi að hluta til verið dráttur á afgreiðslu fjárlaga, en gagnrýnt er að í byrjun maí hafi margar áætlanir enn ekki verið skráðar í bókhaldskerfi ríkisins. Aðeins 10 af 233 áætlunum hafði verið skilað innan tilskilinna tímamarka, þ.e. fyrir árslok 2008.

Embætti sérstaks saksóknara ekki undir miklum þrýstingi

Í byrjun maí höfðu borist áætlanir frá öllum stofnunum nema embætti sérstaks saksóknara. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að það embætti hafi ekki sætt miklum þrýstingi vegna sérstöðu verkefna sinna.

Hvatt til að ákvörðun um útgjaldaramma verði flýtt

Ríkisendurskoðun hvetur til þess að ákvörðun um útgjaldaramma ráðuneyta á árinu 2010 verði flýtt. Lagt er til að ráðuneyti og stofnanir meti hvaða áhrif 5% eða 10% nafnverðslækkun fjárveitinga 2009-2010 hefði á þjónustu þeirra og ákveði hvernig slíkum hækkunum yrði mætt.