Samstarf Keilis við Háskóla Íslands kemur í veg fyrir að hann geti innheimt skólagjöld af nemendum í grunnnámi á háskólastigi. Kemur þetta fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálalega stöðu Keilis. „Því hefur skólinn farið þá leið að skilgreina grunnnám sem endurmenntun. Nýsamþykkt lög um opinbera háskóla girða fyrir þetta. Þar með getur Keilir ekki innheimt önnur gjöld í grunnnámi en skráningargjöld meðan á samstarfi hans við opinberan háskóla stendur.”

Rannsóknar- og háskólasamfélag

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf. var stofnaður árið 2007 til þess að byggja upp rannsóknar- og háskólasamfélag í gömlu herstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Félagið er samsett úr fjórum mismunandi einingum: Háskólabrú (frumgreinadeild), Heilsu- og uppeldisskóla, Orku- og tækniskóla og Flugakademíu. Samtals eiga stofnanir og félög ríkisins þriðjungshlut í Keili. Í ársbyrjun 2010 voru skráðir nemendur skólans 620 og fastir starfsmenn 23.