Ríkisendurskoðun mun taka við endurskoðun viðskiptabankanna þriggja; Glitnis, Kaupþings og Landsbankans.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi gerir fastlega ráð fyrir því að bjóða út endurskoðun bankanna.

„Við höfum ekki sérhæft starfsfólk til að endurskoða banka,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.Útboðið yrði á ESB-svæðinu, því er einnig leitað út fyrir landsteinana að endurskoðendaskrifstofu.

Lögum samkvæmt er það hlutverk Ríkisendurskoðunar að endurskoða öll hlutafélög sem ríkið á helming í eða meira. Í kjölfar þjóðnýtingar bankanna í mánuðinum fellur endurskoðun þeirra því í skaut Ríkisendurskoðunar.

Sveinn segist ekki vita hvenær ráðist verður í útboðið. Það verður gert þegar Ríkisendurskoðun hefur aflað sér nægjanlegra upplýsinga um fjármál bankanna. „Það er verið að vinna í þessu,“ segir hann.

ESB-útboðið fengi flýtimeðferð, að því er Sveini er sagt. „Það tekur um þrjár vikur frá því að auglýsingin er birt,“ segir hann.

PricewaterhouseCoopers var endurskoðandi Glitnis og Landsbankans. KPMG endurskoðaði Kaupþing, samkvæmt árshlutauppgjörum.