Bandarísk fjármálafyrirtæki þurfa að bókfæra afskriftir sínar hið fyrsta svo hægt sé að hefja fulla fjármögnun aftur, sagði Henry Paulson fjármálaráðaherra Bandaríkjanna í samtali við japanska viðskiptadagblaðið Nikkei Daily.

„Hið versta er að ef þeir fjármagna sig ekki með fullnægjandi hætti, minnkar efnahagsreikningur þeirra og þar með útlán til viðskiptavina," segir Paulson. „Ef það er einhver vafi á að fjármögnun sé fullnægjandi ættu slík fyrirtæki að kippa því í liðinn hið fyrsta."

Paulson segir mikilvægt að fjármálafyrirtæki, þar með talin skuldatryggingafélög, þurfi að líta í auknum mæli til einkageirans en ekki hins opinbera til að styrkja fjárhag sinn á tímum sem þessum. „Það kann að vera að í einhverjum löndum þurfi fyrirtæki að leita á náðir hins opinbera, en það er ekki tilfellið í Bandaríkjunum.

Paulson nefnir ríkisfjárfestingasjóði [e. sovereign wealth funds] og að innkoma þeirra á markaði sé jákvæð: „Ég hef talað við forsvarsmenn þessara sjóða margoft, og er handviss um að markmið þeirra er að hámarka arðsemi fjárfestinga sinna. Það er mikilvægt að OECD löndin taki höndum saman og bjóði þessa fjárfestingu velkomna, í stað þess að berjast gegn henni eins og sums staðar hefur verið gert. Í raun er þá verið að slá hendinni á móti beinni erlendri fjárfestingu."