Ríkisfjárfestingasjóðir hafa fjárfest í alþjóðlegum stórfyrirtækjum fyrir um 25,5 milljarða bandaríkjadala sem af er ári.

Nú er það svo að slíkir sjóðir eiga stóran hlut í félögum eins og Citigroup og Merrill Lynch.

Singapore's Temasek Holdings og Abu Dhabi Investment Authority (ADIA) eru dæmi um slíka fjárfestingasjóði en það sem einkennir þá er að þeir eru í eigu ríkja. Sjóðirnir hafa orðið æ áhrifaríkari í bandaríska og evrópska bankakerfinu, sérstaklega eftir að bankarnir tóku að veikjast eftir kreppu á bandarískum húsnæðislánamörkuðum.

Reuters fréttaveitan segir frá því að ríkisfjárfestingasjóðir hafi átt þátt í 22 kaupsamningum á árinu. Þar af komu tveir sjóðir frá Singapore að tíu samningum, samanlagt að upphæð 9,1 milljarða bandaríkjadala.

Mest eru umsvif ríkisfjárfestingasjóða í Bandaríkjunum en u.þ.b. 62 prósent fjárfestinganna eru þar. Sjóðirnir hafa dælt þar inn 15,8 milljörðum bandaríkjadala á árinu en það mun vera fimm sinnum meira en árið áður.

Á eftir Bandaríkjunum nýtur Rússland einnig mikilla vinsælda meðal ríkisfjárfestingasjóða.

Bandaríkjamenn hafa lýst yfir áhyggjum sínum af umsvifum slíkra sjóða og óttast að með þeim geti erlendir fjárfestar tekið í stjórnartauma stórra bandarískra fyrirtækja.

Talið er að vegur ríkisrekinna fjárfestingasjóða muni þó aukast á komandi árum.