Flugvélin TF-FMS, sem er Beech King Air B200 og í eigu hins opinbera hlutafélags Flugstoða ohf. (áður hluti Flugmálastjórnar Íslands), er nú notuð í beinum samkeppnisrekstri hér á landi í skjóli sérstaks samnings við Mýflug hf.

Þykir samkeppnisaðilum mikill pólitískur fnykur af þessu máli og að sér vegið með opinberri meðgjöf með einu félagi umfram önnur.

Rekstraraðilar eru þó flestir tregir til að opinbera óánægju sína af ótta við refsingu opinberra starfsmanna og „að vera hent út í horn“ eins og það er orðað.

Engar nákvæmar upplýsingar hafa fengist frá Flugstoðum um innihald leigusamningsins við Mýflug og því borið við að það sé trúnaðarmál.

Viðskiptablaðið óskaði samt eftir afriti af samningnum með tölvupósti í gær, en hann var ekki sagður vera til afhendingar.

Samkeppnisaðilar fullyrða eigi að síður að samkvæmt honum greiði Mýflug aðeins brot af eðlilegum kostnaði við rekstur og afskriftir slíkra flugvéla og greiði leiguna þar að auki með framkvæmd verksamnings án útboðs. Mýflug hafi síðan notað þessa ríkisflugvél til að undirbjóða flug í samkeppni við önnur starfandi flugfélög á landinu.

Þar með sé opinbert fyrirtæki að hygla einu fyrirtæki á kostnað annarra rekstraraðila. Málið var m.a. kært til kærunefndar útboðsmála.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .