Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) gerir kröfu um að kjararáð leiðrétti afturvirk laun hópsins í takt við þróun launavísitölunnar til desember 2011 þegar lög um launafrystingu runnu út. Kjararáð hefur úrskurðað að launin verði leiðrétt frá og með október 2012 eða tíu mánuðum seinna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Til viðbótar vill FFR, samkvæmt Morgunblaðinu, að laun félagsmanna verði leiðrétt m.t.t. vísitöluþróunar frá og með 2009 þannig að launin leiðréttist um sem nemur 10-20% eftir því hver á í hlut. Er krafan sú að fyrirhugaðar launahækkanir í haust komi ofan á þessa leiðréttingu, þannig að þessi hópur sitji við sama borð og aðrir ríkisstarfsmenn sem ekki hafi búið við frystingu launa.