Lögregla hefur gert forstöðumanni ríkisstofnunar að greiða sekt vegna brota á sóttvarnalögum. Umræddur forstöðumaður afréð að kæra ákvörðunina í þeirri von að fá hana fellda niður. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) frá því í sumar.

Á umræddum fundi var tekin fyrir beiðni forstöðumannsins um fjárhagsaðstoð vegna stjórnsýslumálsins. Ekki er tekið fram í fundargerðinni hvaða forstöðumaður það er sem þarna er á ferð en ljóst að þar er á ferð félagsmaður í FFR. Rétt er að geta þess að laun flestra forstöðumanna eru á aðra milljón króna á mánuði, ef frá er skilinn forstjóri Landspítalans en sá fær tæpar þrjár á mánuði.

„Stjórn tekur undir með viðkomandi félagsmanni að það sé verulegt umhugsunarefni að mál sem þetta fari á sakaskrá viðkomandi félagsmanns. Reglur um sóttvarnir voru á þessum tíma ekki alveg skýrar auk þess sem engar leiðbeiningar fengust frá lögreglu þótt eftir þeim væri leitað. Að mati stjórnar er um fordæmisgefandi réttindamál forstöðumanna almennt að ræða og telur stjórn mikilvægt að þetta mál sé til lykta leitt,“ segir í fundargerðinni.

Ekki er tekið fram hvar eða hvenær umrætt brot átti sér stað eða hvers eðlis það er. Samkvæmt leiðbeiningum ríkissaksóknara er heimilt að sekta fyrir ákveðin brot gegn sóttvarnalögum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra. Þar féllu meðal annars undir brot gegn grímuskyldu, fjarlægðartakmörkunum, skyldu til sýnatöku á landamærum, sem og brotthlaup úr sóttkví eða einangrun.

„Ákveðið að upplýsa [kjara- og mannauðssýslu ríkisins] um málið og benda á að telji viðkomandi ráðherra að umræddur félagsmaður hafi brotið sóttvarnareglur og að rétt sé að hann fái brotið á sína sakaskrá er rétt að ráðherrann áminni viðkomandi. Svo hefur ekki verið gert í þessu tiltekna máli, hvorki áminnt né tiltal veitt,“ segir í fundargerðinni. Ekki er tekið fram hvort umræddur forstöðumaður hafi fengið fjárhagsaðstoð eða þá hve há hún var.