Þessi samningur opnar dyrnar fyrir okkur inn á þennan markað. Hingað til hafa ríkisfyrirtæki ekki mátt versla við okkur,“ segir Brjánn Jónsson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Símafélagsins. Fyrirtækið gerði nýverið rammasamning við Ríkiskaup um alþjónustu í fjarskiptum, það er talsíma, farsíma-, netþjónustu og gagnaflutninga. Samningurinn er til tveggja ára með möguleika á framlengingu í allt að tvö ár til viðbótar.

Síminn og Vodafone hafa fram til þessa verið einu fyrirtækin sem hafa mátt selja ríkisfyrirtækjum alþjónustu á svið fjarskipta og er Símafélagið þar með þriðja fyrirtækið sem veitir alþjónustu innan rammasamnings ríkisins í fjarskiptum.

Brjánn segir pláss fyrir aukna samkeppni á fyrirtækjamarkaði og býst við að þau ríkisfyrirtæki sem kaupi þjónustu frá Símafélaginu ættu að geta lækkað kostnað sinn um 20%. Hann bendir reyndar á að Síminn og Vodafone, sem hafa í gegnum tíðina skipt ríkisfyrirtækjamarkaðnum á milli sín, eigi eftir að bregðast við aukinni samkeppni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .