Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að orðið fríhöfn væri almennt íslenskt orð og skráning fyrirtækis með því heiti, með eða án greinis, hamlaði ekki notkun annarra á orðinu.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu en stofnuninni barst kvörtun frá Fríhöfninni ehf., sem er opinbert félag í eigu Isavia, vegna auglýsinga Hagkaupsverslana á „fríhafnardögum“ sem birst hafa í fjölmiðlum, þar sem Fríhöfnin ehf. taldi að með notkun orðsins væri Hagkaup að nota firmaheiti Fríhafnarinnar.

„Í auglýsingum Hagkaups kemur skýrt fram hvað átt sé við með orðinu „fríhafnardagar“ auk þess sem tengingin við Hagkaup fer ekki á milli mála. Neytendastofa telur því að birting auglýsingarinnar valdi ekki ruglingi á milli Hagkaups og Fríhafnarinnar,“ segir á vef Neytendastofu.