Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hefur á undanförnum árum varið gífurlegum fjármunum í uppbyggingu á dreifingarkerfi sínu, bílum og öðrum hlutum, sem lítið tengist grundvallarskyldu eða lögbundnu þjónustuhlutverki fyrirtækisins.

Frá árinu 2005, eða frá því að Ingimundur Sigurpálsson tók við sem forstjóri félagsins, hefur net tókostnaður Íslandspósts vegna fjárfestinga í ýmiss konar fasteignum, lóðum, áhöldum, tækjum og bifreiðum numið um 3,9 milljörðum króna á föstu verðlagi. Brúttókostnaðurinn er um 4,6 milljarðar króna en á móti nemur söluverð eigna um 640 milljónum króna.

Á sama tíma, þ.e. frá árinu 2005, nemur uppsafnaður hagnaður Íslandspósts aðeins um 827 milljónum króna eftir skatta og fjármagnsliði.

Rétt er að rifja upp að Íslandspóstur er hlutafélag að fullu í eigu ríkisins. Íslandspóstur fer með einkarétt ríkisins vegna póstsendinga á bréfum undir 50g samkvæmt lögum um póstþjónustu og rekstrarleyfi Íslandspósts. Einkarétturinn hefur ítrekað verið framlengdur og gildir nú til næstu áramóta.

Um 2/3 af öllum tekjum Íslandspósts í dag koma til vegna reksturs félagsins á samkeppnismarkaði, sbr. árskýrslu Íslandspósts 2011. Það má lesa úr árskýrslum síðustu ára að félagið sé að sækja inn á nýja markaði, auka starfsemi sína o.s.frv.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu blaðsins undir liðnum tölublöð hér að ofan.