Ríkissjóður gaf út erlenda víxla fyrir 80 milljónir Bandaríkjadala 150 milljónir Evra í júlí, sem samsvarar um 25 milljörðum króna, samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánasýslu ríkisins.

Lánið er varðveitt sem hluti af gjaldeyrisforða Seðlabankans og útskýrir stækkun hans sem þessu nemur í júlí. Gjaldeyrisvaraforðinn var 227,2 milljarðar króna í lok júlí samkvæmt upplýsingum Seðlabankans en þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.

Í Vegvísi kemur fram að víxlaútgáfu var hætt fyrir tveimur árum en hafði þá verið mikilvæg fjármögnunarleið fyrir ríkissjóð um langt skeið.

Samkvæmt Lánasýslunni er markmið útgáfunnar að endurvekja tengsl við fjárfesta með það fyrir augum að vera virkari útgefendur en aðstæður á víxlamarkaði muni svo ráða því hve mikið af víxlum verður útistandandi hverju sinni.

Þá kemur fram að þegar hafa tæplega 30 milljarðar króna verið boðnir út í stystum flokkum ríkisbréfa og alls 75 milljörðum verið úthlutað til stækkunar þeirra en eins og áður hefur komið fram veitti Alþingi ríkissjóði heimild í maí til þess að taka að láni allt að 500 milljarða króna til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans og styrkingar innlends peninga- og gjaldeyrismarkaðar.