Ný vefverslun, Vörusjá, var opnuð formlega á fundi sem Ríkiskaup stóð fyrir á Grand Hóteli í morgun. Vörusjáin mun fyrst um sinn þjóna opinberum innkaupaðilum við kaup á ýmsum aðföngum en síðar almennum fyrirtækjum og neytendum.

Fundurinn var hluti af fræðsluröð Ríkiskaupa og bara yfirskriftina „Hvar verslar þú? – Opnun Vörusjár”.

Það var Jónas Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Vörusjá ehf., sem opnaði Vörusjána formlega.

Í máli hans kom m.a. fram að fyrirtækið hafði gert samning við Fjármálaráðuneytið og Ríkiskaup í júní 2007 um umsjón og rekstur innkaupavefs fyrir stofnanir ríkisins.

Að hans sögn er Vörusjáin mjög auðveld í notkun og gerir t.d. allan verðsamanburð milli birgja auðveldan fyrir kaupendur auk þess sem samskipti kaupenda og birgja verða skilvirkari en áður. Vörusjáin gerir líka birgjum betur kleift en áður að koma vörum sínum á framfæri.

Eigendur Vörusjár ehf. eru Árvakur hf., EC Hugbúnaður ehf., Íslandspóstur hf. og SPRON.

Fundarstjóri var Jóhanna Eirný Hilmarsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunarsviðs Ríkiskaupa. Hún segir fyrri tilraun til reksturs markaðstorgs af þessari gerð hafi gengið bærilega en viðskiptin hafi ekki verið nægilega mikil.

Um er að ræða markaðstorg sem ANZA rak undir nafninu RM (Rafrænt markaðstorg). „Það var samkomulag beggja aðila um að hætta. Ástæðurnar voru ýmsar, m.a. tók einkamarkaðurinn aldrei við sér og það stóð aldrei til að ríkisstofnanir stæðu einar undir rekstri torgsins. Það er ekki arðbært til lengri tíma að reka markaðstorg eingöngu fyrir ríkið á Íslandi.”

Jóhanna segir Vörusjána byggða á annarri tækni en RM enda hafi tæknin breyst mikið á þessum stutta tíma og í dag sé umhverfi fyrir vefverslanir allt annað. Sem dæmi um þær breytingar sem gagnast birgjum nefnir hún að nú geti þeir sett inn fleiri vörur en áður, en séu ekki bundnir við vörur sem falli innan rammasamnings.

Hún nefnir líka stóra breytingu fyrir kaupendur en í Vörusjánni er hægt að skoða bæði almennt listaverð vöru og rammasamningsverð.