Ríkiskaup gerði nýlega rammasamning til tveggja ára við níu fyrirtæki um hýsingu og rekstur tölvukerfa ríkisstofnanna.

Samið var við fyrirtækin byggt á persónulegu og fjárhagslegu hæfi þeirra auk þeirra tæknilegu krafna sem gerð eru til þjónustunnar. Markmiðið er að tryggja stofnunum lögformlega leið til að gera bestu kaup hverju sinni, og fara kaup innan samningsins fram í örútboðum.

Kaupmáttur ríkisins nýttur til hagstæðra kaupa

Jafnframt hafa stofnanir heimild til að fara í sameiginleg örútboð því þannig geti þau nýtt kaupmátt ríkisins til að gera hagstæða samninga. Í örútboði er kveðið nánar um tiltekin innkaup eins og útfærslu, tímaáætlun og heildarverð og óskað eftir tilboðum í þau.

Þau níu fyrirtæki sem samið var við eru Advania, Fjölnet, Nýherji, Opin Kerfi, Sensa, Til ehf., TRS ehf., VS tölvuþjónusta og Þekking.

Gildir rammasamningurinn í tvö ár en jafnframt er heimilt að framlengja hann alls fjórum sinnum til eins árs í senn.