Úrskurður kærunefndar útboðsmála í máli Annata ehf. gegn Ríkiskaupum, Rarik ohf. og Advania ehf. lauk með því að Ríkiskaup og Rarik þurfa að greiða Annata skaðabætur. Kæran snerist um það að bæði fyrirtækin Annata og Advania höfðu komist í gegnum forval um samninga um orkureikningakerfi fyrir Rarik, en Advania fengið samninginn.

Taldi Annata ekki hafa legið fyrir nægilegar forsendur fyrir því að velja Advania frekar en Annata, bæði því verð Annata var lægra, en einnig því sá hluti valferlisins sem snerist um gæði vörunnar hafi ekki leitt í ljós að gæðamunurinn hafi verið mikill, eða endilega Advania í hag.

Samkvæmt úrskurðinum þurfa Ríkiskaup og Rarik að borga Annata 700 þúsund krónur í málskostnað, en hins vegar er hafnað þeirri kröfu Annata að ákvörðun um að semja við Advania verði felld úr gildi.