Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans framkvæmdi í gær húsleitir á einkaheimili og hjá fyrirtæki að beiðni breskra lögregluyfirvalda, samkvæmt tilkynningu frá Ríkislögreglustjóranum.

Efnahagsbrotadeild gerði húsleit hjá fyrirtækinu Skúlason vegna rannsóknar um meint fjársvik og peningaþvott. Jóhannes B. Skúlason, framkvæmdastjóri og einn eigenda Skúlason, staðfesti þetta við Morgunblaðið í gærkvöldi. Hann segist ekki vita hvernig fyrirtækið eigi að tengjast slíku athæfi. Fyrirtækið Skúlason sér meðal annars um símsvörunu og þjónustu fyrir íslensk fyrirtæki.

Húsleitirnar hófust í gærmorgun og á sama tíma voru framkvæmdar á annan tug húsleita víðsvegar um Bretland vegna málsins og sjö einstaklingar handteknir þar í landi.

?Bresk lögregluyfirvöld rannsaka umfangsmikil fjársvik í Bretlandi og peningaþvætti sem felst í því að koma afrakstri ætlaðra fjársvika undan. Fjársvikin eru talin felast í kerfisbundinni sölu hlutabréfa í fyrirtækjum með blekkingum, röngum og villandi upplýsingum um fyrirtæki og væntanlega skráningu bréfa í kauphöll. Brotastarfsemin er talin hafa staðið um nokkurra missera skeið og grunaðir einstaklingar í málinu búa og starfa víðsvegar í Evrópu," segir í tilkynningu Ríkislögreglustjórans.

Að húsleitum, almennri gagnaöflun, meðal annars leit í tölvum, handtökum og yfirheyrslum vinna fimmtán starfsmenn efnahagsbrotadeildar.