Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri og Jón H. B. Snorrason, saksóknari og yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, eru vanhæfir til að stýra rannsókn á meintu skattalagabroti fimm einstaklinga er tengjast Baugmálinu. Það er úrkurður Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féllst á kröfu verjanda þeirra þess efnis í dag. Þetta kemur fram í frétt á Mbl.is. Dómurinn samþykkti þó ekki kröfu verjenda þeirra um að hætta við rannsókn málsins.

Skattamálið tengist rannsókn embættis ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur, Tryggva Jónssonar og Stefáns Hilmarssonar, segir í frétt Mbl.is.

Lögmenn þeirra segja að brotið hafi verið gegn skjólstæðingum sínum, þar sem yfirmenn ríkislögreglustjóri hafi þá skoðun að þeir séu sekir, en ekki taldir saklausir uns sekt sé sönnuð.

Sem rökstuðning er nefnt að Haraldur Johannessen segir við Blaðið að rannsóknin muni fara fyrir dómi sem skattsvikamál. Þá er nefnt að Jón H. B. Snorrason segi við Blaðið að ef einhver bryti af sér á þessu sviði lenti hann hjá efnahagsbrotadeild til rannsóknar, að því er fram kemur í frétt Mbl.is.