Fjármálaeftirlitið hefur vísað máli tveggja aðila, fyrrverandi starfsmanns Landsbankans og starfsmanns Stoða (áður FL Group) til ríkislögreglustjóra. Málið varðar meinta markaðsmisnotkun þeirra.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur málið verið til rannsóknar hjá FME á á annað ár.

„Þeir starfshættir sem Fjármálaeftirlitið taldi gefa til kynna að um markaðsmisnotkun væri að ræða fólust í því að aðilar málsins, þ.e. starfsmaður fjárfestingafélagsins og verðbréfamiðlari fjármálafyrirtækisins, virðast hafa sýnt af sér ásetning til þess að hækka gengi hluta í [fjórum félögum í Noregi, Danmörku og Finnlandi] með tilboðum sínum og viðskiptum í því skyni að fegra stöðu eignasafns fjárfestingafélagsins við lok viðkomandi ársfjórðungs," segir í tilkynningu FME til ríkislögreglustjóra.

Þar segir að  gengi hluta þeirra félaga sem keypt var í hafi ört hækkað á fimm viðskiptadögum en eftir lok ársfjórðungsins hafi umrætt fjárfestingafélag, þ.e. FL Group, hætt kaupum í félögunum og byrjaði gengi allra fjögurra félaga að lækka á sama tímapunkti.

FME hefur rannsakað málið í samstarfi við viðkomandi erlend fjármálaeftirlit. Sem fyrr segir hefur málinu verið vísað til ríkislögreglustjóra.