Ekki er rétt að embætti ríkislögreglustjóra (RSL) hafi neitað að afhenda Ríkisendurskoðun  upplýsingar um viðskipti RSL við fyrirtækið RadíóRaf ehf frá janúar 2007 til september 2011, samtals rúmar 141 milljón króna. Vegna fyrri samskipta embættanna og opinberra ummæla ríkisendurskoðanda um RLS telur embættið að ekki ríki lengur trúnaður og traust milli embættanna. Því var farið fram á að ríkisendurskoðandi víki sæti við meðferð þessa máls.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá RSL þar sem farið er með ítarlegum hætti yfir viðskipti embættisins við fyrirtækið RadíóRaf. Þar kemur einnig fram að embættið muni bíða með að svara erindi ríkisendurskoðanda þar til fyrir liggur hvort ríkisendurskoðandi víki sæti í málinu.

Lögmannsstofan LEX vann nýlega álitsgerð fyrir RSL þar sem farið er yfir stöðu RSL gagnvart ríkisendurskoðanda í ljósi þeirra ummæla og ávirðinga sem komið hafa fram á síðustu vikum. Þar er rifjað upp að ríkisendurskoðandi hafi komið fram í fjölmiðlum og fullyrt að RLS hafi framið lögbrot með því að hafa ekki keypt vörur af RadíóRaf og öðrum heildsölum að undangengnu útboði. Innanríkisráðuneytið skoðaði málið og úrskurðaði um að ríkislögreglustjóri hefði ekki brotið lög en þrátt fyrir það ítrekaði ríkisendurskoðandi fyrri afstöðu sína til málsins.

„Því verður að telja líklegt að núverandi ríkisendurskoðandi muni áfram taka með sama hætti á sams konar álitaefnum ef þau koma upp,“ segir í álitsgerð LEX.

Þá segir einnig: „Ætla má að Ríkisendurskoðun hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt við rannsókn á því og ábendingu um hvort RLS hafi við innkaup farið að ákvæðum laga nr. 84/2007 um opinber innkaup...“

RadíóRaf með einkaleyfi á þeim búnaði sem þótti bestur

Í tilkynningu RLS er farið yfir viðskipti embættisins við RadíóRaf. Þar kemur fram að viðskiptin varði aðallega hraðaratsjár, forgangsbúnað og þjónustu vegna lögreglubifreiða, en fyrirtækið hefur verið í hópi birgja embættisins frá árinu 2003.

Fram kemur að embættið hafi um áraráðir notast við tæki frá bandaríska fyrirtækinu Kustom Signals Inc. Um tíma var Radíóþjónustu Sigga Harðar ehf. með einkaumboð á þeim tækjum hér á landi en við gjaldþrot Radíóþjónustu Sigga Harðar stofnuðu tveir fyrrum starfsmenn fyrirtækisins nýtt félag, RadíóRaf.

„Fyrirtækið varð umboðsaðili fyrir Kustom Signals Inc. hér á landi og fjárfesti í tækjabúnaði og menntun starfsmanna til þess að sinna viðhaldi og kvörðun á búnaði lögreglunnar. RadíóRaf er eini aðilinn hérlendis sem getur yfirfarið og kvarðað umræddan ratsjárbúnað í samræmi við gildandi reglur og skv. kröfum framleiðanda,“ segir í tilkynningunni.

„Það eru faglegar og tæknilegar ástæður fyrir viðskiptum við vali á RadíóRaf sem birgja fyrir hraðaratsjár og tengdan búnað. Fyrirtækið fékk einkaumboð á vörum frá Kustom Signals Inc. árið 2003 en ákvörðun um val lögreglunnar á búnaðinum átti sér stað löngu fyrir þann tíma.“

Fram kemur að RadíóRaf annast ísetningu á hraðaratsjám í lögreglubíla. Einnig að framleiðandi geri kröfu um að viðurkenndur aðili annist ísetningu og vottun búnaðarins. Gefið er út sérstakt vottorð fyrir hverja ísetningu að kröfu RLS. RadíóRaf er eini aðilinn hérlendis sem hefur hlotið viðurkenningu framleiðandans.

Hvað forgangsbúnað varðar er svipaða sögu að segja samkvæmt tilkynningunni. Lögreglan hafi fyrir árið 2000 einkum keypt Wheelan ljósabúnaður frá Donnu ehf. en aðrir þjónustuaðilar hafi séð um ísetningu þeirra. Þau ljós hafi hins vegar ekki reynst sem skyldi.

„RLS ákvað því að kaupa til reynslu forgangsbúnað frá Federal Signals hjá Radíóþjónustu Sigga Harðar. Á grundvelli reynslu af þeim búnaði var ákveðið að nota hann áfram. Við gjaldþrot Radíóþjónustu Sigga Harðar tók RadíóRaf við umboði fyrir Federal Signals Inc,“ segir í tilkynningunni.

„Með tilkomu LED ljósatækni var ákveðið að kaupa slík ljós af Federal Signals, en fyrirtækið var einn af fyrstu framleiðendum á LED ljósabogum. Ljós frá Federal Signals hafa mjög lága bilanatíðni og langan líftíma. Meðalaldur ljósabúnaðar lögreglunar er 8 -10 ár eftir að hún hóf notkun ljósabúnaðar frá Federal Signals. Líftími eldri gerða var styttri. Gæði, rekstrarkostnaður, líftími og öryggisþættir er ráðandi við val á búnaði, en ekki eingöngu stofnverð hans. RadíóRaf er eini aðilinn sem annast sölu og þjónustuviðhald þessa búnaðar, þ.m.t. ábyrgðarviðgerðir. Fyrirtækið er auk þess með helstu viðhaldsvörur á lager. Það eru faglegar og tæknilegar ástæður sem liggja að baki þeim viðskiptum sem RLS hefur átt við RadíóRaf sem birgja.“

Lögreglan
Lögreglan
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)


Rekstur bílamiðstöðvar boðinn út

Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að árið 2000 hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytið falið RLS umsjón með innkaupum og rekstri allra ökutækja lögreglunnar og búnaðar þeirra (bílamiðstöð ríkislögreglustjóra). Árið 2008 hófst vinna við undirbúning á útboði á rekstri bílamiðstöðvar. Útboðið var auglýst 5. apríl 2009 á evrópska efnahagssvæðinu. Í útboðinu fólst yfirtaka á öllum ökutækjum lögreglunnar og búnaði þeirra þ.m.t. búnaður og þjónusta sem keypt var frá RadíóRaf.

„Tilboð voru opnuð 22. maí 2009 og bárust tilboð frá sex innlendum aðilum. Lægsta tilboðið var um 40-60 m.kr. hærra á ársgrundvelli en þáverandi rekstur RLS á bílamiðstöðinni,“ segir í tilkynningunni.

„Ríkiskaup, fyrir hönd dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, hafnaði öllum tilboðum. Hagkvæmara þótti að RLS héldi áfram óbreyttum rekstri bílamiðstöðvar og þar með viðskiptum við RadíóRaf og aðra birgja.“