Björn Þorvarðarson, aðstoðarsaksóknari hjá ríkislögreglustjóra, staðfestir að verið sé að skoða mál tveggja starfsmanna fjármálafyrirtækis vegna meintrar markaðsmisnotkunar. „Þetta er ekki umfangsmikið mál og við vonumst til þess að [rannsókn á því] taki skamman tíma,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Fjármálaeftirlitið vísaði málinu til ríkislögreglustjóra hinn 8. maí síðastliðinn eins og greint var frá á vef Viðskiptablaðsins, vb.is í morgun. Hvorki FME né ríkislögreglustjóri vilja gefa upp hjá hvaða fyrirtæki mennirnir starfa. Björn segir aðspurður að þeir séu ekki í háum stjórnunarstöðum.

„Við skoðum málið og athugum hvort við þurfum að kalla eftir frekari gögnum. Þegar þeirri rannsókn er lokið er metið hvað gera skuli,“ segir hann. Í ljósi þess að málið sé ekki umfangsmikið er búist við að rannsókn taki skamman tíma, eins og áður sagði. Enn á eftir að taka skýrslur af aðilum málsins.

Ekki áður fengið sambærilegt mál á sitt borð

FME vísaði málinu til ríkislögreglustjóra með vísan til m.a. ákvæðis laga um verðbréfaviðskipti sem varðar markaðsmisnotkun. Björn segir aðspurður að embættið hafi ekki áður fengið mál af þessu tagi inn á sitt borð.

Hann segir hins vegar að Fjármálaeftirlitið hafi fyrir nokkrum mánuðum vísað öðru máli sem tengist starfsmanni fjármálafyrirtækis til ríkislögreglustjóra. Það mál sé enn í rannsókn. „Það varðar ekki sömu hluti en er svipað að stærð,“ segir hann. Sá aðili er heldur ekki í hárri stjórnunarstöðu innan síns fyrirtækis.