Óli Björn Kárason alþingismaður, og stofnandi Viðskiptablaðsins, segir í aðsendri grein í blaðinu sem kom út fyrir helgi að stjórnmálamenn sem taki stöðu með atvinnulífinu verði að búa sig undir að vera sakaðir um að ganga erindi sérhagsmuna.

Þingmaðurinn lýsir svo umræðunni eins og hann sér hana, að linnulítil atlaga hafi verið að fyrirtækjum og einkaframtakinu í landinu í mörg ár, grafið hafi verið undan athafnafólki með skipulegum hætti og það gert að skotspæni sem táknmyndum hins illa.

„Ríkisrekstur er trúaratriði,“ segir Óli Björn meðal annars um þau viðhorf sem honum þykir ráðandi í umræðunni.

„Sjálfstæðir atvinnurekendur fá ekki að vera í friði. Allt og allir eru tortryggðir enda eiginhagsmunaseggir sem skara eld að eigin köku á kostnað samfélagsins. Það þykir eðlilegt og sjálfsagt (jafnvel nauðsynlegt) að dylgja og saka einstaklinga um lögbrot – umboðssvik, eða ósiðlega framkomu í viðskiptum. Þegar sá sem borinn er röngum sökum grípur til varna, er það gert tortryggilegt og sagt til merkis um sekt.“

Segir Óli Björn umræðuna leiða til þess að einstaklingar, sem hafi áralanga reynslu úr atvinnulífinu, byggt upp fyrirtæki og skapað verðmæti og störf með því að taka áhættu og náð árangri, hafi enga löngun til að taka þátt í pólítísku starfi, hvað þá að leitast eftir kjöri til Alþingis.

„Þess vegna er að þingið ekki eins vel mannað og það gæti verið. Skilningur á gagnverki þjóðfélagsins, samhengi verðmætasköpunar og lífskjara, á undir högg að sækja. Það er skiljanlegt. Fæstir þeirra sem kjörnir eru á Alþingi hafa kynnst því hvað það er að setja allt sitt undir í rekstur fyrirtækis. Þekkja ekki þær áhyggjur að eiga fyrir launum starfsmanna um næstu mánaðamót eða geta staðið skil á virðisaukaskatti á komandi gjalddaga,“ segir Óli Björn.

„Kannski er þetta ástæða fyrir því að jarðvegurinn fyrir sífellt þyngri byrðar á fyrirtæki, flóknara regluverk og hert eftirlit, er eins frjór og raun ber vitni í þingsal. Og ef til vill skýrir þetta einnig hversu neikvæðir margir stjórnmálamenn og -flokkar eru gagnvart einkarekstri hvers konar ekki síst í heilbrigðisþjónustu. Góð reynsla af einkarekstri er léttvæg, betri þjónusta aukaatriði og lægri kostnaður ríkisins (okkar skattgreiðenda) er aukaatriði.“

Segir hann það sama eiga við um fjölmiðlafólk, sem hann kallar fjölmiðlunga, sem harðast gangi fram í gagnrýni á atvinnulífið. Skýrt dæmi að mati þingmannsins um að hagsmunir Íslendinga séu ekki leiðarvísir stjórnmálamanna dagsins í dag er að andstæðingar einkareksturs í heilbrigðisþjónustu vilji frekar senda sjúklinga til annarra landa en tryggja aðgengi almennings að nauðsynlegri þjónustu hér á landi.

Líklegt má telja að hann sé þar að vísa í aðgerðir eins og þær sem Klíníkin í Ármúla bauð upp á en heilbrigðisráðuneytið neitaði að taka þátt í að greiða upp í þó borgað væri fyrir sams konar aðgerðir í Svíþjóð.

„Lengi hefur verið rætt um nauðsyn þess að gera stjórnmálin meira aðlaðandi fyrir ungt fólk þannig að það sjái ástæðu til að leggja þau fyrir sig. Með sama hætti hafa flestir stjórnmálaflokkar lagt áherslu á að ryðja braut kvenna til áhrifa innan flokkanna og tryggja þeim framgang. Árangur hefur náðst, þó margir telji að gera megi betur. En með sama hætti sem ungu fólki og konum er fagnað í þingsal Alþingis og í sveitarstjórnir, ætti það að vera sérstakt keppikefli fyrir stjórnmálaflokka (ekki síst þá sem kenna sig við frjáls viðskipti og öflugt atvinnulífið) að laða til sín framtaksfólk sem þekkir eðli fyrirtækjarekstrar.“

Lesa má greinina í heild sinni á vef Viðskiptablaðsins þar sem hún var birt í gær.