Ríkissaksóknari hefur áfrýjað sýknudómi héraðsdóms í  Ímon-málinu svokallaða til Hæstaréttar, að því er fram kemur á vef RÚV .

Dómurinn er hluti af ákæru um allsherjarmarkaðsmisnotkun á hendur Landsbankamönnum. Í Ímon-málinu voru ákærð þau Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar. Sigurjón og Elín voru bæði sýknuð af ákæru sérstaks saksóknara í júní og hefur ríkissaksóknari nú áfrýjað þeim dómi. Steinþór var hins vegar dæmdur í níu mánaða fangelsi. Hann hefur einnig áfrýjað dómnum til Hæstaréttar.

Vill að réttað verði aftur

Ríkissaksóknari hefur einnig áfrýjað sýknudómi yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Bjarna Jóhannessyni í Aurum Holdings-málinu. Fram kemur í umfjöllun RÚV að ríkissaksóknari telji Sverri Ólafsson, meðdómara í málinu og bróðir Ólafs Ólafssonar í Samskipum, hafa verið vanhæfan til að dæma í málinu. Því vill ríkissaksóknari að Hæstiréttur ógildi dóminn og réttað verði aftur í málinu.